Að vera barn alkahólista. Sem barn, þá þarftu töluvert mikið á foreldrum þínum að halda, svo þegar foreldri er alkahólisti/með fíknisjúkdóm þá hefur það alltaf gífurleg áhrif á barn. Sem barn er maður að læra, vaxa og mótast. Fyrirmyndirnar eru foreldrarnir. Af þeim lærir maður að ganga, tala.. o.sv.framv.
Fólk með virkan fíknisjúkdóm er yfirleitt alltaf í mikilli afneitun og segir bæði sér sjálfum og öðrum ósatt. Þannig læra börnin lika að segja ósatt. Ég man eftir að hafa mjög oft sagt ósatt sem barn. Ég hringdi mömmu inn veika á mánudögum, ég vissi vel að hún var ekki “veik” þ.e.a.s. ekki hefðbundið veik, hún var ekki með hita, kvef eða hósta. Hún var þreytt eftir helgardjammið. – Að segja ósatt fyrir fólk með fíknisjúkdóm heitir meðvirkni. Það er óhjákvæmilegt sem barn annað en að vera meðvirkur, ekki eins og þú eigir val um annað. Þú ert ekkert að fara að segja nei…. við yfirvaldið. A.m.k. ekki framan af.
Eins er algengt að maður fari líka að segja ósatt við veika foreldrið, sérstaklega ef foreldrið er reitt, ósanngjarnt og sjálfhverft. – Sem er mjög oft raunin með fólk með virkan fíknisjúkdóm. Börnum er oft refsað óeðlilega mikið. Og þar sem þau hafa lært að ljúga, ljúga þau.
Það er mjög algengt að fólk með virkan fíknisjúkdóm sé ekki hæft til að taka góðar ákvarðanir svo þegar börnin vaxa upp, taka þau gjarnan meiri og meiri ábyrgð á foreldrum sínum,er jafnvel gefin þessi ábyrgð, jafnvel heimt af þeim. Þau taka því oft ábyrgð sem er ekki í takt við aldur og þroska. Þegar börn taka ábyrgð á því sem þau hafa ekki þroska til, þá veldur það oftast kvíða. Kvíði hefur margar birtingarmyndir, t.d. svefnleysi, lystarleysi, ofát, erfiðleikar við að hafa hægðir, pissa undir á nóttunni, eiga erfitt með að einbeita sér. Börn hins vegar vita ekki að þetta sé kvíði. Þau segja ekki “Ég er kvíðin” Þau segja: Mér er illt í maganum.
Ein algengasta birtingarmynd meðvirkni hjá börnum alkahólista er stjórnsemi. En eitt af einkennum þess sem er með sjúkdóminn er stjórnleysi, sem flest börn kunna afar illa. Þau reyna því að taka stjórn, með allskonar leiðum. Þetta getur birst í að elsta systkini ráðskast með yngri systkin, enda búin að vera að taka óeðlilega mikla ábyrgð á því, þau stela jafnvel frá foreldrum til að vera viss um að matur sé til í skápunum. Sinna innkaupum, húsverkum, þrífa upp ælur og öskubakka, hringja inn veikindi.. o.sv.framv.
Smám saman missir barnið virðingu fyrir foreldrinu og eftir því sem það vex upp og þroskast, þá er hættan sú að barnið fari í uppreisn, og fari sjálft í neyslu.. það er hins vegar alls ekki algilt.
Skömm er eitt af því sem börn alkahólista upplifa oft. Þau fatta snemma að heimili þeirra er frábrugðið heimilum annara barna og oft vilja þau ekki koma heim með vini sína. Það er erfitt að heyra gagnrýni vinanna á foreldrum þeirra, eriftt að svara spurningum sem eru nærgönglar. Eins er stundum öðrum börnum bannað að leika sér við börn alkahólista því jú, eðlilegir foreldrar vilja ekki að börn sín séu I óheilbrigðum aðstæðum.
Mörg börn reyna að hafa “vit” fyrir foreldrinu. Og reyna með ýmsum ráðum að “bjarga” foreldrinu. – Sem er auðvitað ekki hægt. En hlutir eins og að hella niður víni, skammast, ræðuhöld, grátbiðja, hvetja… skila ekki tilætluðum árangri, foreldrið upplifir oft sektarkennd og lofar öllu fögru, en hefur svo ekki getu til að standa við það.
Vanmáttur barna alkahólista er mikill.
En ef þú ert barn alkahólista eins og ég, þá vil ég segja við þig..
Þú getur valið öðruvísi líf fyrir þig. Þú getur yfirstigið erfiðleikana og eignast gott líf. Ekkert af þessu er þér að kenna. (og ef einhver sagði það, þá er það ekki rétt) Alkahólismi er sjúkdómur í heila og þróast ekki af því að börn alkahólistu séu svona og hinsvegin.
Það eru allar líkur á því að þú verðir það sem þú ætlar þér að verða, svo hvað ætlar þú að verða ?
Það er ein manneskja sem þú getur breytt… og það ert þú sjálf/ur. Það er von.