Tinna Guðrún Barkardóttir

Ég heiti Tinna Guðrún Barkardóttir og er 34 ára einhleyp stelpa með mikla ástríðu fyrir því að hjálpa fólki í neyð.
Ég hef ólæknandi áhuga á fíkn og öllu sem tengist fíknsjúkdómnum.

Ég er menntaður kennari og fór einnig í framhaldsnám í áhættuhegðun, forvörnum og lífssýn, sem ég kláraði þó ekki alveg. Einnig er ég menntaður förðunarfræðingur.
Ég kenndi unglingum í sex ár, sem ég elskaði. Meðfram námi og vinnu vann ég í tíu ár í félagsmiðstöð, stjórnaði vinnuskóla Garðabæjar og vann verkefni fyrir barnavernd.

Árið 2015 fékk ég heilablóðfall og þurfti að hætta kennslu. Eftir að hafa komið mér á fætur lét ég draum minn rætast og fór að vinna með fólki með fíknsjúkdóm. Fyrst sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ en sl. tvö ár hef ég alfarið einbeitt mér að vinnu fyrir barnaverndir með mikla áherslu á fjölskyldur sem glíma við fíknsjúkdóminn.

Ég tel það til kosta að hafa sjálf þurft að berjast við kerfið í og eftir erfið veikindi og þurft að búa á stofnun í kjölfar veikindanna.
Ég er metnaðarfull, ákveðin, þrjósk, samstarfsfús, skilningsrík og góð í mannlegum samskiptum.

Minn draumur er að samfélagið sem við búum í taki öllum eins, við náum að vinna á fordómum og gefum fólki annað tækifæri.

Image