16 mánuðir edrú

Það er von, lífið gengur bara betur og betur. Ég er að þroskast og læra mikið. Ég er að kynnast sjálfum mér betur og betur. Það er að koma meiri ró yfir mig og meiri stöðuleiki. Ég held áfram að leggja inn vinnuna og er að uppskera í takt.

Þegar fólk spyr mig hvernig fórstu að þessu? Þurftiru að finna botn? Hvað varð til þess að þú hefur náð að vera edrú með alla þína forsögu?

Ég hataði sjálfan mig. Ég var tilbúinn að breytast. Ég ákvað að gefa þessu séns og gera ALLT. Ég sagði við mig víst ég get tortímt sjálfum mér 24/7 í mörg ár. Þá hlýt ég að vera tilbúinn að gefa þessari sjálfsvinnu ALLT. Ég er svo sannarlega ekki fullkominn og ég geri ennþá fullt af mistökum, en ég nota þau til að læra af í stað þess að vorkenna mér yfir að ég sé ekki fullkominn. Ég er að mestu hættur að vera með óraunhæfar kröfur bæði til lífsins og til sjálfs míns.

Þegar ég var inná vog þá leit ég á þetta þannig hverju hef ég að tapa? Hvað í lífi mínu var þess virði að lifa fyrir þegar ég kom inná vog og svarið er hreinlega ekkert. Líf mitt var bara hreint út glatað og ömurlegt. Það einkenndist af óheiðarleika, þráhyggju, vanlíðan, depurð, þunglyndi, flótta, brjóta eigið siðferði, sektarkennd og skömm.

Fyrstu mánuðirnir voru erfiðir, ég labbaði 10-15 km á dag, fór á 2 fundi á dag, ég lagði alla bætur inná mömmu og lét skammta mér pening.

Því ég skildi að ég væri ekki bestur að taka ákvarðanir eftir að ég sá myndirnar af virkni heila þeirra sem hafa notað cocaine, heilinn minn þurfti tíma til þess að hreinsa sig af eiturefnum sem höfðu áhrif á það hvernig ég tek mínar ákvarðanir.

Ég hef axlað ábyrgð á fíflinu sem ég var. Ég hef gefið mikið af mínum tíma til þess að vera til staðar fyrir aðra. Því ótrúlegt en satt þá hjálpar það mér að gefa mér ákveðna sjálfsást, að vita að ég er að gera rétt og gefa af mér það sem ég get gefið af mér. Að hjálpa öðrum tekur mig líka úr mínum eigin haus sem getur oft á tíðum verið sjálfhverfur og dramatískur, það gefur mér tilgang að vita til þess að hafa aðstoðað fólk í þessari baráttu.

Vandamál mín í dag eru á stærð við pínulitlar hnetur á meðan í neyslu þá voru þau á stærð við ísland.

Hvað varðar að finna botn og uppgjöf. Botnin og uppgjöfin er í raun bara þessi vitundarvakning þegar við föttum að það geta allir breyst og við erum tilbúin að gera ALLT til að vera edrú. Leggja okkar eigin hugmyndir til hliðar og hlusta á fólkið sem hefur náð meiri árángri en maður sjálfur á þessu sviði. Ég var rosa hrokafullur en löngunin mín í að ná þessu og læra þetta var stærri en löngun mín til að þykjast vita þetta. Styrkleikur mannkynsins er að við höfum getu til að læra af hvoru öðru.

Ég hef lært svo margt í þessu ferli og ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir hversu margir hlutir hafa einhvern veginn unnið með manni. Það hafa svo sannarlega verið röð tilviljana sem hafa virkilega fengið mig til að halda að það er eitthvað sem vakir yfir mér og passar mig.

Mig langar að hvetja alla sem eru þarna úti að þjást að þiggja hjálpina, það er raunverulegi styrkurinn, hættu að dæma sjálfan þig, gefðu þér annað tækifæri, reyndu aftur að verða edrú, við hættum ekki að reyna að labba þegar við dettum. Við höldum áfram að reyna þar til við náum því. Svo æfum við okkur á hverjum degi til að verða betri og betri!

Eitt skref í einu, ein áskorun í einu, eitt verkefni í einu, ein erfið samskipti í einu án þess að deyfa sig aða flýja, þannig eykst þolið.

Þannig þroskumst við.

Það er von